Í dag kemur Blokkin á heimsenda út og í dag er leyndarmálið okkar ekki lengur leyndarmál!
Við erum glaðar og þakklátar og hlökkum til að fylgjast með bókinni okkar spjara sig úti í veröldinni.
Við vinkonur byrjuðum að skrifa bók árið 2015. Við skrifuðum megnið af henni 2019 og þegar við skiluðum henni inn í keppnina um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur voru frásagnir af einhverri lungnabólgu í Kína enn mjög óljósar.
Þegar við fengum símtal um niðurstöðu dómnefndar var innan við vika frá því að fyrsta smitið greindist á Íslandi.
Það kom okkur þess vegna svolítið á óvart þegar við áttuðum okkur á því að nú í vor gæfum við út bók um samfélag sem hefur lokast alveg og fólk sem er fjarri ástvinum sínum. Það er svolítið skrýtið að undarlega sagan okkar fjalli um stað þar sem þarf að fara vel með auðlindir heimsins og leggja áherslu á matvælaframleiðslu til þess að lifa af, því ekki er hægt að treysta á vöruflutninga. Allt hljómar þetta kunnuglega á vordögum 2020, en var víðsfjarri okkur í fyrrasumar þegar sagan var að mestu skrifuð.
En sagan okkar er samt engin dæmisaga, þrátt fyrir þessa einkennilegu tilviljun. Hún er saga sem við skrifuðum saman í gleði, til þess að skemmta hvorri annarri. Þetta er saga þar sem við leyfðum okkur að hleypa hugmyndafluginu á skeið og skapa heilan heim. Þetta er saga sem við erum stoltar af og þakklátar fyrir að mega kenna við galdrakonuna Guðrúnu Helgadóttur sem hnýtti sagnaþræði æsku okkar.
Leyndarmálið er ekki lengur leyndarmál, og við bjóðum ykkur velkomin til Eyjunnar!
Hér má lesa umsögn dómnefndar í heild sinni.