
Farsóttarfárið hefur áhrif á ólíklegustu stöðum, og jólabókaflóðið er þar engin undantekning. Í venjulegu árferði hefðum við nú heimsótt fjölmarga skóla, lesið upp á bókasöfnum og spjallað við lesendur víða í samfélaginu.
Raunin er þó önnur.
Þá er gott að geta nýtt sér tæknina, og því viljum við benda á nýlegt viðtal við Arndísi úr Krakkakiljunni. Það kemur ekki alveg í staðinn fyrir upplestur í eigin persónu, en þar er lesið úr bókinni og spjallað um hana.
Það gleður okkur að sjá að verkefnin okkar eru talsvert sótt hérna á vefinn og því kjörið að nota viðtalið sem ítarefni ef verið er að vinna með bókina.
Af öðrum tíðindum má nefna að Blokkin á heimsenda er nú komin út sem hljóðbók á vef Forlagsins og því er hægur leikur að hlusta á hana í bílnum, við eldhússtörfin eða áður en maður sofnar!