Guðrún Helgadóttir

Mynd:

„Maður vill gjarnan, þó að það hljómi voðalega barnalega, gera heiminn kannski svolítið betri en hann er, eða að minnsta kosti ekki verri.“

Guðrún Helgadóttir í samtali við Morgunblaðið 1. desember 1998

Stofnun barnabókaverðlauna Guðrúnar Helgadóttur var tilkynnt árið 2018 og þau voru veitt í fyrsta sinn árið eftir. Verðlaunin eru veitt fyrir óprentað handrit sem sent er inn undir dulnefni.

Um Guðrúnu

Guðrún Helgadóttir er fædd árið 1935 og hefur skrifað meira en tuttugu og fimm bækur, flestar fyrir börn. Guðrún sat líka lengi á Alþingi, af því hún er ein af þessu fólki sem finnst mikilvægt að breyta heiminum til hins betra með öllum leiðum – bæði með sögum og fundasetum.

Fyrsta bókin hennar kom út árið 1971 og þegar við vorum litlar lásum við sögurnar hennar af áfergju, eins og flestir jafnaldrar okkar.

Nú erum við orðnar stórar og okkur finnst ennþá gaman að lesa bækur Guðrúnar. Guðrún er fyrirmynd okkar, hún skrifar bækur sem eru fyndnar og sorglegar í einu, bækur þar sem persónur eru breyskar og gera mistök.

Undan illgresinu er uppáhaldsbók Arndísar en Hulda heldur sérstaklega upp á Pál Vilhjálmsson og sögurnar af Jóni Oddi og Jóni Bjarna.

Sögurnar af Jóni Oddi og Jóni Bjarna vöktu raunar athygli fyrir að draga upp lifandi og skemmtilega mynd af lífi í blokk. Mætti ímynda sér að sú blokkar-bók hafi sáð fræi sem síðar varð að annarri blokkar-bók, þótt ólík sé? Það gæti þó aldrei verið.

Það er örugglega til bók eftir Guðrúnu Helgadóttur á hverju einasta bókasafni á landinu (nema kannski bókasafni Seðlabankans – við erum ekki alveg vissar um það, þótt það geti auðvitað vel verið) og við hvetjum alla til þess að lesa sögurnar hennar!

Fræðist meira um Guðrúnu Helgadóttur

%d bloggurum líkar þetta: