Arndís og Hulda skrifuðu Blokkina á heimsenda saman. Þær hafa ekki hugmynd um það lengur hvor skrifaði hvað!

Hulda Sigrún Bjarnadóttir
Hulda lærði sálfræði og bókasafnsfræði og er búsett í Reykjavík. Hulda á tvær dætur, einn mann og tvo ketti. Hulda byrjaði að skrifa skáldskap á ensku og fjórar unglingabækur eftir hana komu út undir höfundanafninu Rune Michaels hjá bandaríska bókaforlaginu Simon & Schuster. Rune eins og í SigRÚN, þið skiljið. Bækurnar heita Genesis Alpha, The Reminder, Nobel Genes og Fix me.
Unglingabækurnar hennar Huldu hafa komið út á ensku, þýsku, frönsku, portúgölsku, kóresku og mandarín.
Verðlaun og viðurkenningar:
- Tilnefning (short list) til Green Earth Book Award 2012 fyrir Fix Me.
- Belgísku verðlaunin Prix Farniente 2010 fyrir Genesis Alpha
- Frönsku lesendaverðlaunin Gayant Lecture 2010 fyrir Genesis Alpha
- Genesis Alpha var valin á lista borgarbókasafns New York borgar yfir bestu unglingabækurnar 2008

Arndís Þórarinsdóttir
Ólíkt Huldu hefur Arndís aldrei lært neitt hagnýtt, heldur bara bókmenntir og ritlist.
Hún á mann, tvö börn og nokkrar rykkanínur sem halda til undir rúminu hennar. Hún býr líka í Reykjavík og hefur skrifað og þýtt bækur í nokkur ár. Það má lesa meira um það allt saman á vefsíðunni arnd.is.
Hún er yfirleitt svolítið glaðlegri en á þessari mynd.

Samvinnan
Þegar við kynntumst árið 2005 bjó Hulda í Danmörku og Arndís í Bretlandi, en nú búum við báðar í Reykjavík. Stundum spilum við World of Warcraft á netinu, á tímabili unnum við saman og stundum förum við með börnin okkar í keilu.
Fyrir nokkrum árum ákváðum við að gera tilraun. Við vorum góðar vinkonur og báðar rithöfundar – væri ekki sniðugt að prófa að skrifa sögur saman?
Það var sniðugt! Við skemmtum okkur konunglega við að skrifa hvor annarri bréf í nafni ýmissa skrýtinna persóna. Úr urðu margar skemmtilegar sögur, en við fullunnum þær sjaldnast.
Sumarið 2019 ákváðum við að nú yrðum við að klára heila bók. Við héldum fund, skoðuðum gamlar hugmyndir, völdum þá bestu og ákváðum hvað átti að gerast.
Við skrifuðum báðar svolítið á hverjum einasta degi allt sumarið. Um haustið löguðum við söguna til og í janúar sendum við hana inn í samkeppnina um Barnabókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur.
Það átti að skila inn þremur eintökum af handritinu. Risastóra umslagið sem Arndís hafði keypt reyndist vera allt of lítið og á síðustu stundu tróð hún öllu saman ofan í þennan ágæta Legó-kassa.
Ofurhetjusveit fylgdi Dröfn, ömmu og öllum hinum síðasta spölinn.