Whittier

Whittier
Alaska
Bandaríkjunum
Íbúafjöldi: 200

Vefsíða bæjarins

Bærinn í blokkinni

Blokkin á heimsenda gerist í bæ þar sem allir íbúarnir búa saman í einni blokk. En undarleg hugmynd!

Já, það er undarleg hugmynd – en það er ekki undarleg hugmynd okkar rithöfundanna. Blokkin okkar á sér nefnilega fyrirmynd í raunveruleikanum.

Þetta byrjaði þannig að önnur okkar – sennilega Hulda – rakst á grein um samfélag sem var allt í einu fjölbýlishúsi.

Þetta var þorp í Alaska.

En skrýtið! hugsuðum við. En undarlegt. Og við rannsökuðum málið svolítið betur. Við horfðum á myndbönd um afskekkta bæinn Whittier í Alaska. Það búa bara um tvö hundruð manns í þessu þorpi. Og langflestir í sama húsinu. Og það getur verið erfitt að komast til og frá Whittier, af því þangað liggja bara mjó fjögurra kílómetra jarðgöng og svo er hægt að komast þangað sjóleiðina, ef vel viðrar.

En fáránleg hugmynd! Að búa í svona miklu návígi við nágranna sína – og komast kannski ekki burt?

Við gátum ekki hætt að hugsa um þetta. Við lásum líka um 45 hæða blokk í Venesúela sem hústökufólk hafði tekið yfir. Líka eitthvað um einangruð þorp í Síberíu í Rússlandi, sem ekki er hægt að komast frá hálft árið. Það voru greinilega til alls konar samfélög í heiminum.

Og smám saman varð Eyjan til í huga okkar. Samfélag sem var einu sinni lítið þorp – eins og hvert annað. Svo stóð til að þorpið yrði stærra – það var byggt stórhýsi – en þá breyttust aðstæður. Það hætti að vera vit í því að ferðast til Eyjunnar og frá henni aftur um veturna. Og smám saman fluttu eyjaskeggjarnir allir inn í blokkina, því veðrin voru orðin svo slæm að þeir urðu að standa saman og hjálpast að. Smám saman varð blokkin Blokkin – ekki bara fjölbýlishús heldur heilt þorp.

Við ýktum auðvitað aðstæður. Við settum þorpið niður á eyju og gerðum það alveg ómögulegt að komast þangað og heim aftur um vetur. Og við ákváðum að hafa venjuleg fjarskipti líka erfið, til þess að auka enn á einangrunina.

En Whittier í Alaska er samt kveikjan.

Það er hægt að sjá heimildarmyndir um Whittier á Youtube – til dæmis þessa hér eða þessa hér, frá kennaranum á staðnum (sem myndi auðvitað vera Barnakennarinn ef hún ætti heima í Blokkinni okkar).

Hér er líka umfjöllun Lemúrans um risastóra blokk sem hýsti á tímabili um 1% grænlensku þjóðarinnar.

%d bloggurum líkar þetta: